Ræktaðu geðið og styrktu Geðhjálp
Yfir þorrann, þá býður Geðhjálp upp á dagleg hollráð til þess að bæta geðheilsu. Við köllum þessi hollráð G vítamín.
Hrósaðu fólki
„Flott hár. Töff jakki. Góður matur. Þú stendur þig vel.“ Maður þarf ekki að segja þetta allt í einu en allir eru sammála um að það er yndislegt að fá hrós. Hrós bætir samskipti okkar, það er uppbyggjandi og dregur jafnframt úr afbrýðisemi og öfund sem brjóta niður og eyðileggja. Það veitir vellíðan að hrósa öðrum. Bentu á hið jákvæða í fari annarra og þú munt uppskera ríkulega. Reyndu að skilja aðra. Það hægir iðulega á skreflöngum mönnum að setja sig í annarra spor. Þegar betur er að gáð, þá sést að samleiðin er eina færa leiðin. Hrósum.
12. febrúar, 2023
G vítamín hollráð
G vítamínið er byggt á Geðorðunum 10 og 14 Lífsorðum Héðins Unnsteinssonar og Þórdísar Rúnarsdóttur. Sjá nánar á landlaeknir.is og hedinn.org/lifsordin14