G Vítamín
G Vítamín
UM VERKEFNIÐ
Geðhjálp

30

Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup

Því betur sem við undirbúum okkur fyrir langhlaupið sem lífið er, því minni hætta er á að við ofkeyrum okkur. Þess vegna er mikilvægt að byggja sig upp, bæði andlega og líkamlega. En í hverju felst velgengni hlaupsins? Er það hversu hratt við hlaupum, hversu vel við hlaupum eða hversu margir horfa á okkur hlaupa? Klappa fyrir okkur? Elska okkur? Hver er þess umkominn að ákveða í hverju árangurinn af hlaupinu felst? Ættum við ekki að fá að ráða ferðinni og muna að hlaupið, lífið, er sameiginleg vegferð okkar allra, og sá fyrsti sem kemur í mark vinnur ekki endilega. Sigurinn felst í því hvað þú gerðir á ferðalaginu.

29

Hlæðu með öðrum

Það skiptir máli fyrir lífsgæði hverrar manneskju að taka sjálfa sig ekki of alvarlega. Aðrir hugsa ekki stöðugt um þig, þú ert hluti af umhverfinu, umhverfið er ekki hluti af þér. Húmor leikur stórt hlutverk í hamingjuleitinni og andlegu jafnvægi. Það má alltaf nýta sér hann til að létta á spennu og streitu. Það er gott að hlæja. Hvort sem þú hlærð að einhverju í alvörunni eða gerir þér upp hlátur, hefur það sömu áhrif á varnarkerfi líkamans. Góður hlátur losar um spennu og gefur um leið aukinn kraft. Leyfðu þér að skella upp úr með samferðarfólki og finndu hvernig það styrkir öll tengsl.

28

Upplifðu náttúruna

Íslendingar búa í nánum tengslum við náttúruna. Í náttúrunni býr heilandi afl. Hún færir okkur ró, styrk, kraft, frið, sátt, breytileika og jafnvægi. Fyrir okkur Íslendinga er náttúran alltaf til staðar, hvar sem við búum. Finndu þína staði, bæði þá sem stutt er að sækja og þá sem krefjast lengra ferðalags. Ef þú kemst ekki út í náttúruna eins reglulega og þú vildir, finndu hana þá heima fyrir (kvikmyndir, tónlist, útsýnið úr stofunni …). Njóttu hverrar árstíðar. Semdu frið við veturinn, snjóinn, myrkrið, rigninguna og hálkuna.

27

Farðu og leiktu þér

Lífið er leikur – það að gleyma sér í leik er öllum hollt auk þess sem það styrkir tengsl þeirra sem leika. Leikurinn þarf ekki að snúast um keppni og sigur – heldur þátttöku og gleði. Lífsgleði. Leikurinn hreyfir við okkur, við erum á tánum, blóðið flæðir og athyglin kemst ekki frá leiknum. Leikurinn færir okkur líf. Við leikum og gleymum okkur. Spilaðu tölvuleik, farðu út í fótbolta, leystu krossgátu eða leiktu þér í barnalauginni með vini þínum. Það bíða þín alltaf leikföng og innri leikgleði. Þú þarft bara að leika þér.

26

Flæktu ekki líf þitt að óþörfu

Flæktu ekki líf þitt að óþörfu Sönn hamingja felst í því að einfalda líf sitt. Að einbeita sér að þörfum sínum umfram langanir – forgangsraða. Mikilvægt er að þekkja hvaða aðstæður valda streitu og vanlíðan og forðast þær. Áhyggjur yfir því ókomna hjálpa ekki, nema síður sé. Gott er að þjálfa sig í því að útiloka neikvæð áhrif frá umhverfinu, einfalda líf sitt og velja sér þá þætti tilverunnar sem brugðist er við og njóta þess að þurfa ekki að bregðast við öllu því sem tilveran færir okkur.

25

Finndu þrjá kosti í eigin fari og segðu þá upphátt

Við búum öll yfir hæfileikum og mannkostum. Þegar við erum lítil í okkur, getur það gert kraftaverk að telja upp þrjá helstu kosti okkar, upphátt, nokkrum sinnum. Þessi aðferð styrkir sjálfstraust og trú okkar á því að við séum mikils virði og að við eigum allt gott skilið.

24

Borðaðu hollan mat í félagsskap annarra

Það að nærast er ein af grunnþörfum lífsins. Líðan okkar stendur í nánum tengslum við mataræði. Borðaðu þrjár aðalmáltíðir á dag og tvo til þrjá millibita. Ef þú borðar of sjaldan yfir daginn aukast líkurnar á því að þú borðir yfir þig á kvöldin. Það er einnig mikilvægt að njóta matarins, gefa sér tíma til að borða hann. Íslendingar borða oft og tíðum of hratt. Máltíðir hafa í gegnum tíðina endurspeglað félagslega athöfn þar sem fólk upplifir mennsku sína. Það að deila máltíð með öðrum getur fært þér lífshamingju. Einbeittu þér að matnum og félagsskapnum. Drekktu í þig stemninguna og finndu þá afslöppun sem kemur í kjölfarið.

23

Dragðu andann djúpt tíu sinnum í röð

Við öndum allan sólarhringinn allt okkar líf og það skiptir máli hvernig við öndum. Það að draga andann djúpt er forsenda allrar sjálfsræktar og slökunar. Andardráttur okkar er mælikvarði á líðan okkar hverju sinni. Við erum gædd þeim merka hæfileika að geta stýrt honum og þannig verður andardrátturinn að afar gagnlegu tæki í höndum okkar. Prófaðu að brjóta upp daginn með því að anda mjög djúpt tíu sinnum, í hvaða aðstæðum sem er. Þannig hreinsum við huga og líkama af óþarfa aukaefnum.

22

Stattu með sjálfum/sjálfri þér

Sjálfsvirðing er eitt það mikilvægasta sem við lærum í lífinu. Hún er forsenda þess að við finnum hamingjuna og jafnvægi á milli okkar sjálfra og annarra. Sterk sjálfsmynd geymir þá staðföstu trú að við séum mikils virði og eigum allt gott skilið. Að við séum nóg. Við skiljum takmarkanir okkar og kunnum að nota hæfileika okkar. Þar skiptir mestu máli að geta sett öðrum heilbrigð mörk. Það er bjargráð að geta sýnt sjálfum/sjálfri sér samkennd og hlýju, einkum þegar við festumst í hugsunum um brostnar væntingar. Sársauki verður alltaf hluti af lífinu en ef við sýnum skilning og hlýju, getum við komið í veg fyrir að sársauki verði að langtímaþjáningu. Hver einstaklingur hefur til að bera sérstaka blöndu af hæfileikum og styrkleikum sem gera hann einstakan. Mikilvægast er að vita af styrkleikum sínum, skilja hvaðan þeir koma og nota þá.

21

Brostu framan í spegilinn

Það var ekki að ástæðulausu að viska Einars Benediktssonar greyptist í hjarta þjóðarinnar: „Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.“ Brosið er margvottað undrameðal. Brostu framan í spegilinn og segðu eitthvað fallegt og uppörvandi við sjálfa(n) þig og þér mun líða betur. Ef þú temur þér að brosa reglulega við sjálfum/sjálfri þér muntu eiga auðveldara með að tileinka þér umburðarlyndi gagnvart þér og öðrum. Það sakar ekki að prófa!

20

Þakkaðu fyrir daginn að kvöldi

Stundum er afrek að komast í gegnum langa daga. Sestu niður að kvöldi hvers dags og farðu yfir alla atburði hans, samskipti, hugsanir og líðan og leitastu við að upplifa þakklæti fyrir daginn. Vertu þakklát(ur) fyrir allar vökustundir dagsins – hvort sem þær færðu þér vellíðan eða vanlíðan og dragðu af þeim þakkláta niðurstöðu sem færir þig nær sátt. Sátt við lífið. Vertu svo viðbúin(n) að mæta nýjum degi sem færir þér ný tækifæri og áskoranir til framfara sem manneskja.

19

Gerðu góðverk án þess að segja frá því

Það er með ólíkindum hverju þú getur áorkað í þessu lífi, ef þér stendur á sama um það hver fær heiðurinn. Það að hverfa frá sjálfinu í stað þess að upphefja það, er ævilangt verkefni auðmýktar og lítillætis. Æfðu þig í að sækjast ekki eftir viðurkenningu fyrir það sem þú gerir fyrir aðra. Einsettu þér að vinna reglulega leynilegt góðverk fyrir aðra og halda gleðinni fyrir þig. Það að starfa án strits og krefjast ekki umbunar, sýnir að þú ert á þroskabraut.

18

Farðu yfir daginn áður en þú leggur af stað

Margir undirbúa daginn að morgni, áður en lagt er af stað, með hugleiðslu eða öndunaræfingum – stilla viðhorf sitt og væntingar. Minntu þig á að dagurinn gæti orðið uppfullur af samskiptum við annað fólk sem getur verið í alls konar standi. Fylltu þig af mildi og gæsku til annarra áður en þú leggur af stað og minntu þig á að öll trén í skóginum eiga rótarkerfið sameiginlegt – sameiginlega mennsku sem liggur undir okkur öllum, tengir okkur. Hana getum við öll ræktað.

17

Hvíldu skjáinn í hálftíma fyrir svefn

Tilvera okkar er orðin afar rafmögnuð. Aðgengi okkar að upplýsingum í gegnum rafmagnaða skjái og allt að því áráttukennd „þörf“ okkar fyrir þær upplýsingar sem þeir hafa upp á að bjóða hefur áhrif á líðan okkar. Það þarf ekki vísindalegar rannsóknir til að segja okkur að „skjálífið“ sé ósvífinn svefnspillir. Þá er ekki annað til ráða fyrir okkur en að sniðganga tækið í smástund áður en við förum að sofa. Góð bók svíkur engan. Í versta falli svæfir hún og þá er takmarkinu náð. Góða nótt, góða bók.

16

Finndu sjálfa(n) þig í öðrum

Við ættum að þekkja það sem við eigum sameiginlegt með öðrum áður en við greinum það sem skilur okkur frá þeim. Veruleiki annarra hefur áhrif á veruleika þinn. Ef mennirnir eru sandkorn, þá endurspeglast kraftaverk tilvistar okkar í spurningunni um það að hve miklu leyti við viljum upplifa okkur sem sandkorn og að hve miklu leyti sem eyðimörk. Margir vilja meina að maðurinn eigi að fórna sjálfinu til að vera eyðimörk. Það er að segja, sækjast ekki eftir ytri viðurkenningu, sjálfinu til upphafningar, heldur finna innri kjölfestu í kærleika sem gagnast öllu samfélaginu.

15

Hrósaðu fólki

„Flott hár. Töff jakki. Góður matur. Þú stendur þig vel.“ Maður þarf ekki að segja þetta allt í einu en allir eru sammála um að það er yndislegt að fá hrós. Hrós bætir samskipti okkar, það er uppbyggjandi og dregur jafnframt úr afbrýðisemi og öfund sem brjóta niður og eyðileggja. Það veitir vellíðan að hrósa öðrum. Bentu á hið jákvæða í fari annarra og þú munt uppskera ríkulega. Reyndu að skilja aðra. Það hægir iðulega á skreflöngum mönnum að setja sig í annarra spor. Þegar betur er að gáð, þá sést að samleiðin er eina færa leiðin. Hrósum.

14

Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir

Eldra fólk, sem státar af hamingjuríku lífshlaupi, nefnir ósjaldan þegar það er spurt um leyndardóma lífsins, að það hafi aldrei hætt að læra, sé forvitið og finni alltaf eitthvað í nánasta umhverfi sem kemur á óvart. Þetta viðhorf er til eftirbreytni og mikilvægt að festast ekki í fjötrum vanans. Við verðum aldrei of gömul fyrir neitt, allra síst okkar villtustu drauma. Það er lífstíðarverkefni að kynnast sjálfum/sjálfri sér og eigin viðbrögðum.

13

Hreyfðu þig daglega

Aukaskammtur G-vítamíns miðvikudaginn 17. febrúar: Frítt í sund úti um allt land!
Í dag bjóða sveitarfélög úti um allt land frítt í sund sem aukaskammt af G-vítamíni dagsins sem er „hreyfðu þig daglega“. Að fara í sund, taka 100 metrana eða bara láta þreytuna líða úr sér í pottinum er G-vítamín í sinni tærustu mynd! Sjá lista yfir sundlaugar hér

Tímarnir hafa breyst. Kyrrseta er orðin algengari en áður en á sama tíma hafa hraði og streita aukist. Þess vegna hefur hreyfing aldrei verið mikilvægari. Ef þú hreyfir þig reglulega, minnkar streita og spenna og lífsgæðin aukast. Leyfðu árstíðunum að hafa áhrif á val þitt. Ekki ætla þér um of og hikaðu ekki við að biðja um leiðbeiningar eða aðstoð. Hreyfðu þig með öðrum eins oft og þú getur. Notaðu tónlist, ef þér finnst hún hvetja þig áfram eða hjálpa þér að slaka á. Finndu þann tíma sem hentar best og mundu eftir mikilvægi öndunar meðan á hreyfingunni stendur. Virtu líkama þinn, ekki festast í að breyta honum með ytri viðmið að leiðarljósi, einblíndu frekar á hið innra. Rannsóknir hafa sýnt að hreyfing vinnur með geðheilsu.

12

Gleymdu þér

Það er mikilvægt fyrir lífshamingjuna að gleyma sér reglulega, hafa einhverja ástríðu fyrir því sem við erum að gera því þá upplifum við slökun og tengingu við okkur sjálf. Hugsaðu um alla vini þína, kunningja, vinnufélaga og fjölskyldumeðlimi. Hverjir sýna þér mestan áhuga? Með hverjum líður þér best? Hvar er mesti hláturinn? Með hverjum slakar þú mest á? Leggðu áherslu á að rækta samband við þá sem auka orkubirgðir þínar. Hittir þú fólk á hverjum degi sem nærir þig? Það verður að rækta vina- og fjölskyldusambönd, þau verða ekki til af sjálfu sér.

Gleymdu þér á safni í dag

11

Hugsaðu jákvætt, það er léttara

Jákvæðni er undirstaða vellíðanar því án jákvæðra hugsana er vellíðan í lágmarki. Því má halda fram að jákvæðni sé lykillinn að hamingjuríku lífi og velgengni. Það er hægt að hafa áhrif á líðan með hugarfarinu. Ef við temjum okkur að hugsa jákvætt, verða samskipti okkar við annað fólk betri. Jákvæð hugsun og afstaða mótar öll okkar samskipti og það sem þau leiða af sér. Jákvæð hugsun er afar mikilvæg fyrir heildina. Jákvæðni er hugrökk ákvörðun, sem vitaskuld er ekki alltaf möguleg, en viðleitnin skilar von og von er súrefni allra samfélaga.

10

Farðu að sofa sátt(ur)

Áður en við sofnum og leggjum upp í ferðalag frá meðvitund að undirmeðvitund draumanna er gott að skilja í sátt við hugsanir og gjörðir dagsins. Taka ekkert með sér. Sumir gera slíkt með skrifum í dagbók. Þar geturðu komið því á framfæri sem ekki náðist að hafa orð á með samtölum þann daginn. Tómur bakpoki eykur líkur á góðum svefni auk þess sem þá er pláss fyrir alla drauma þína þegar þú snýrð til baka.

9

Hlúðu að því sem þér þykir vænt um

Við lítum oft á fólk, staði, heilsu, hversdagsleikann og lífið sjálft sem sjálfsagðan hlut. Það er ekki fyrr en við missum eitthvað sem við áttum okkur á mikilvægi þess. Mundu að láta vini þína vita hvað þú metur þá mikils, foreldra þína, börn og gæludýr – já, allan þann kærleika sem er í lífinu í kringum þig. Ekkert af þessu er sjálfsagt og þess vegna ættum við á hverjum degi að lofa og hlúa að því sem skiptir okkur máli.

8

Finndu og ræktaðu hæfileika þína

Allir búa yfir einhverjum hæfileikum og það er mikilvægt að við leitum að hæfileikum okkar og ræktum þá. Þegar hæfileikar okkar fá að njóta sín vinnum við eftir bestu getu. Við erum öll góð í einhverju. Hvar liggur ástríða þín, hvar fá hæfileikar og geta þín best dafnað? Með því að beina lífsorku þinni að einhverju sem þú ert góð(ur) í og brennur fyrir, öðlast þú hugarró og flæði sem leiða af sér vellíðan. Hvenær nýturðu þín best, í hvaða aðstæðum gleymir þú þér og finnur að þú hefur ánægju og góða stjórn á því sem þú ert að gera? Gerðu meira af því og vertu enn betri.

7

Settu þér raunhæf markmið

Hugsjónir dagsins í dag geta orðið raunveruleiki morgundagsins, sama hvað hver segir. Þær þurfa ekki að vera mikilfenglegar. Einföld markmið eða ásetningur endurspegla einlægan vilja til breytinga. Ef það er eitthvað sem þig langar að gera, eitthvað sem þig langar að breyta, settu þér þá tímamörk og sýndu staðfestu og þolinmæði við að ná settu marki. Með því að setja markmið þín á blað, hlutgera þau, ertu búin(n) að stíga fyrsta skrefið.

6

Mundu að brosa

Húmorinn hjálpar okkur að sjá okkur sjálf og aðra í öðru og léttara ljósi, hjálpar okkur að finna sátt gagnvart því sem við stjórnum ekki. Reyndu að breyta pirringi í léttleika með því að nota húmorinn. Þegar þú finnur að streita eða kvíði er að hellast yfir þig, skaltu prófa að brosa í kampinn, ekki allan hringinn, en nóg til að varirnar rétt bregði sér upp á við. Ef þú vilt bæta sjálfstraustið, skaltu æfa þig í að hlæja að mistökum þínum og göllum. Þannig kemur þú í veg fyrir neikvæðar hugsanir. Ef þú temur þér að brosa að sjálfum/sjálfri þér reglulega muntu eiga auðveldara með að tileinka þér umburðarlyndi gagnvart sjálfum/sjálfri þér og öðrum.

5

Láttu þig langa í það sem þú hefur

Rannsóknir sýna að þegar fólk leggur meðvitað aukna áherslu á að vera þakklátt fyrir það sem það hefur, þá verður það hamingjusamara. Þetta er eitt dæmi þess hvernig sönn hamingja felst í því að einfalda líf sitt. Gott er að taka reglulega eftir því sem þú hefur og vera þakklát(ur) og enn betra er að tjá það á einhvern hátt. Neyslusamfélög eru þannig uppbyggð að það er einblínt á það sem ekki er til staðar eða það sem þér finnst vanta. Oft er talað um að markaðurinn ali á stöðugri ófullnægju og óánægju með okkur sjálf, líf okkar og líkama. Að mörgu leyti mótast afstaða okkar út frá þroska og þeim gildum sem skipta okkur máli. Virði. Hvers virði erum við? Mótast virðið af manngildi eða efnisgildi? Erum við dottin í þá gryfju að skilgreina hver við erum sem manneskjur eftir þeim hlutum sem við eigum?

4

Vertu til staðar

Of mikil orka fer í að hugsa um fortíðina eða hafa áhyggjur af framtíðinni. Það skapar oft streitu og kvíða. Börn fæðast með þann hæfileika að lifa í núinu. Þegar angist unglingsáranna bankar upp á missa margir af núinu og brátt verður það að vana. Oft á dag gleymum við okkur – hverfum inn í framtíð eða fortíð. Besta leiðin til að vera tengd(ur), er að vera til staðar. Þegar þú ert til staðar, er lífið einfaldara. Það má líkja huganum við flugmóðurskip þar sem flugvélar eru hugsanirnar. Þegar flugvélar eru stöðugt að hefja sig til flugs og lenda og hugsanahríðin er þétt, er erfitt að vera til staðar og streita og kvíði eiga þá greiðan aðgang að þér. Æðruleysisbænin og þau skilaboð sem í henni felast eiga hér vel við.

3

Fagnaðu hækkandi sól

Fagnaðu hækkandi sól Í nokkrum byggðarlögum á landinu er drukkið sólarkaffi um þessar mundir því sólin sést á ný. Þetta er tíðkað þar sem ekki sést til sólar yfir háveturinn. Réttast væri að sólarkaffi væri drukkið um allt land. Það þarf nefnilega ekki djúpan fjörð eða fjallasali til að mannfólkið sakni þeirrar birtu og hlýju sem sólin gefur. Það er við hæfi að leyfa sér að finna fyrir djúpu þakklæti nú þegar þessi gleðigjafi birtist að nýju.

2

Líttu á mistök þín sem mikilvæga reynslu

Það er gæfa fólgin í því að líta á mistök sín sem tækifæri til betra lífs. Mistök geta verið örvandi fyrir hvers kyns framfarir og persónuþroska. Það þjónar engum tilgangi að velta sér sakbitin(n) yfir liðinni tíð, heldur er réttara að líta svo á að hið liðna hafi gert okkur sterkari og betri. Bestu kokkarnir eru iðulega þeir sem gert hafa mistök í eldhúsinu.

1

Prófaðu eitthvað nýtt

Við vöxum, styrkjumst og eflumst mest í nýjum aðstæðum en þær þurfa alls ekki að vera framandi eða flóknar til að bera ávöxt. Það er nóg að ákveða að smakka nýjan mat, lesa eitthvað utan eigin áhugasviðs eða kynnast fólki sem þú telur þig ekki eiga samleið með. Segðu já við skrýtinni tillögu, taktu áhættu, prófaðu eitthvað nýtt – það er óhætt að laumast út fyrir þægindahringinn og upplifa eitthvað óvænt.

Vinningshafar