G Vítamín
Geðhjálp

Við lítum oft á fólk, staði, heilsu, hversdagsleikann og lífið sjálft sem sjálfsagðan hlut. Það er ekki fyrr en við missum eitthvað sem við áttum okkur á mikilvægi þess. Mundu að láta vini þína vita hvað þú metur þá mikils, foreldra þína, börn og gæludýr – já, allan þann kærleika sem er í lífinu í kringum þig. Ekkert af þessu er sjálfsagt og þess vegna ættum við á hverjum degi að lofa og hlúa að því sem skiptir okkur máli.

Við búum öll yfir hæfileikum og mannkostum. Þegar við erum lítil í okkur, getur það gert kraftaverk að telja upp þrjá helstu kosti okkar, upphátt, nokkrum sinnum. Þessi aðferð styrkir sjálfstraust og trú okkar á því að við séum mikils virði og að við eigum allt gott skilið.

Of mikil orka fer í að hugsa um fortíðina eða hafa áhyggjur af framtíðinni. Það skapar oft streitu og kvíða. Börn fæðast með þann hæfileika að lifa í núinu. Þegar angist unglingsáranna bankar upp á missa margir af núinu og brátt verður það að vana. Oft á dag gleymum við okkur – hverfum inn í framtíð eða fortíð. Besta leiðin til að vera tengd(ur), er að vera til staðar. Þegar þú ert til staðar, er lífið einfaldara. Það má líkja huganum við flugmóðurskip þar sem flugvélar eru hugsanirnar. Þegar flugvélar eru stöðugt að hefja sig til flugs og lenda og hugsanahríðin er þétt, er erfitt að vera til staðar og streita og kvíði eiga þá greiðan aðgang að þér. Æðruleysisbænin og þau skilaboð sem í henni felast eiga hér vel við.

Aukaskammtur G-vítamíns miðvikudaginn 17. febrúar: Frítt í sund úti um allt land!
Í dag bjóða sveitarfélög úti um allt land frítt í sund sem aukaskammt af G-vítamíni dagsins sem er „hreyfðu þig daglega“. Að fara í sund, taka 100 metrana eða bara láta þreytuna líða úr sér í pottinum er G-vítamín í sinni tærustu mynd! Sjá lista yfir sundlaugar hér

Tímarnir hafa breyst. Kyrrseta er orðin algengari en áður en á sama tíma hafa hraði og streita aukist. Þess vegna hefur hreyfing aldrei verið mikilvægari. Ef þú hreyfir þig reglulega, minnkar streita og spenna og lífsgæðin aukast. Leyfðu árstíðunum að hafa áhrif á val þitt. Ekki ætla þér um of og hikaðu ekki við að biðja um leiðbeiningar eða aðstoð. Hreyfðu þig með öðrum eins oft og þú getur. Notaðu tónlist, ef þér finnst hún hvetja þig áfram eða hjálpa þér að slaka á. Finndu þann tíma sem hentar best og mundu eftir mikilvægi öndunar meðan á hreyfingunni stendur. Virtu líkama þinn, ekki festast í að breyta honum með ytri viðmið að leiðarljósi, einblíndu frekar á hið innra. Rannsóknir hafa sýnt að hreyfing vinnur með geðheilsu.

Eldra fólk, sem státar af hamingjuríku lífshlaupi, nefnir ósjaldan þegar það er spurt um leyndardóma lífsins, að það hafi aldrei hætt að læra, sé forvitið og finni alltaf eitthvað í nánasta umhverfi sem kemur á óvart. Þetta viðhorf er til eftirbreytni og mikilvægt að festast ekki í fjötrum vanans. Við verðum aldrei of gömul fyrir neitt, allra síst okkar villtustu drauma. Það er lífstíðarverkefni að kynnast sjálfum/sjálfri sér og eigin viðbrögðum.

Tilvera okkar er orðin afar rafmögnuð. Aðgengi okkar að upplýsingum í gegnum rafmagnaða skjái og allt að því áráttukennd „þörf“ okkar fyrir þær upplýsingar sem þeir hafa upp á að bjóða hefur áhrif á líðan okkar. Það þarf ekki vísindalegar rannsóknir til að segja okkur að „skjálífið“ sé ósvífinn svefnspillir. Þá er ekki annað til ráða fyrir okkur en að sniðganga tækið í smástund áður en við förum að sofa. Góð bók svíkur engan. Í versta falli svæfir hún og þá er takmarkinu náð. Góða nótt, góða bók.

Rannsóknir sýna að þegar fólk leggur meðvitað aukna áherslu á að vera þakklátt fyrir það sem það hefur, þá verður það hamingjusamara. Þetta er eitt dæmi þess hvernig sönn hamingja felst í því að einfalda líf sitt. Gott er að taka reglulega eftir því sem þú hefur og vera þakklát(ur) og enn betra er að tjá það á einhvern hátt. Neyslusamfélög eru þannig uppbyggð að það er einblínt á það sem ekki er til staðar eða það sem þér finnst vanta. Oft er talað um að markaðurinn ali á stöðugri ófullnægju og óánægju með okkur sjálf, líf okkar og líkama. Að mörgu leyti mótast afstaða okkar út frá þroska og þeim gildum sem skipta okkur máli. Virði. Hvers virði erum við? Mótast virðið af manngildi eða efnisgildi? Erum við dottin í þá gryfju að skilgreina hver við erum sem manneskjur eftir þeim hlutum sem við eigum?

Allir búa yfir einhverjum hæfileikum og það er mikilvægt að við leitum að hæfileikum okkar og ræktum þá. Þegar hæfileikar okkar fá að njóta sín vinnum við eftir bestu getu. Við erum öll góð í einhverju. Hvar liggur ástríða þín, hvar fá hæfileikar og geta þín best dafnað? Með því að beina lífsorku þinni að einhverju sem þú ert góð(ur) í og brennur fyrir, öðlast þú hugarró og flæði sem leiða af sér vellíðan. Hvenær nýturðu þín best, í hvaða aðstæðum gleymir þú þér og finnur að þú hefur ánægju og góða stjórn á því sem þú ert að gera? Gerðu meira af því og vertu enn betri.

Við vöxum, styrkjumst og eflumst mest í nýjum aðstæðum en þær þurfa alls ekki að vera framandi eða flóknar til að bera ávöxt. Það er nóg að ákveða að smakka nýjan mat, lesa eitthvað utan eigin áhugasviðs eða kynnast fólki sem þú telur þig ekki eiga samleið með. Segðu já við skrýtinni tillögu, taktu áhættu, prófaðu eitthvað nýtt – það er óhætt að laumast út fyrir þægindahringinn og upplifa eitthvað óvænt.

Húmorinn hjálpar okkur að sjá okkur sjálf og aðra í öðru og léttara ljósi, hjálpar okkur að finna sátt gagnvart því sem við stjórnum ekki. Reyndu að breyta pirringi í léttleika með því að nota húmorinn. Þegar þú finnur að streita eða kvíði er að hellast yfir þig, skaltu prófa að brosa í kampinn, ekki allan hringinn, en nóg til að varirnar rétt bregði sér upp á við. Ef þú vilt bæta sjálfstraustið, skaltu æfa þig í að hlæja að mistökum þínum og göllum. Þannig kemur þú í veg fyrir neikvæðar hugsanir. Ef þú temur þér að brosa að sjálfum/sjálfri þér reglulega muntu eiga auðveldara með að tileinka þér umburðarlyndi gagnvart sjálfum/sjálfri þér og öðrum.